top of page

Gegnsæi og íbúalýðræði.

Kosningaklisja eða raunveruleg stefna

 

Við hjá Frjálsu afli viljum auka gegnsæi í rekstri bæjarins og íbúalýðræði. Það er vaxandi og sjálfsögð krafa í nútímasamfélagi að kjósendur hafi aukinn aðgang að upplýsingum og að áhrif þeirra séu ekki takmörkuð við kosningar á fjögurra ára fresti. Það er því vinsælt hjá framboðum að hafa þessi atriði á stefnuskránni en oft er lítið um útfærslur og minna um efndir.  Með nútímatækni er fátt sem stendur í vegi fyrir því að upplýsingar séu gerðar aðgengilegar í gegnum vef bæjarins. Við viljum nýta tæknina til þess að bæjarbúar geti auðveldlega fylgst með helstu málum. Þannig gætu bæjarbúar nálgast tillögur, kostnaðaráætlanir og raunkostnað við verkefni jafnóðum og upplýsingarnar liggja fyrir. Bæta þarf grenndarkynningar vegna skipulagsbreytinga og byggingaframkvæmda og auðveldlega má nýta tæknina til þess að gera þær aðgengilegri.

 

Nýtum tæknina í þágu íbúanna

Með auknu gegnsæi verða bæjarbúar upplýstari um verkefni bæjarins. Það gerir þeim kleift að taka upplýsta afstöðu til bæjarmálanna. Með því skapast jafnframt forsenda til þess að koma á fót virku íbúalýðræði. Það er augljóst að ekki er hægt að halda hefðbundnar íbúakosningar um hvert einasta mál sem undir bæjarstjórn heyrir. Slíkt væri bæði óskilvirkt og kostnaðarsamt. Þess vegna er ekki raunhæft að beita þeirri aðferð nema í allra stærstu grundvallarmálum. Aftur á móti má nýta tæknina á þessu sviði líka. Upplýsingaflæðið á ekki eingöngu að vera einstefna frá bæjarstjórn til íbúanna. Mögulegt er að breyta vefsíðu bæjarins með þeim hætti að íbúar geti komið fram með umsagnir og tillögur með auðveldum hætti. Jafnframt er hægt að gera áreiðanlegar kannanir um stærri mál og þá er ekkert því til fyrirstöðu að láta fara fram kosningar á netinu þar sem notuð yrðu áreiðanleg auðkenni svo sem íslykill.

 

Veitum kjörnum fulltrúum aðhald!

Allar þessar leiðir eru færar til þess að auka aðkomu íbúa að ákvörðunum og gera samskipti gagnvirk. Það að auki verða gömlu leiðirnar, þ.e. tengsl bæjarfulltrúa við bæjarbúa og fundir með bæjarbúum, væntanlega mun gagnlegri og árangursríkari ef bæjarbúar hafa greiðan aðgang að upplýsingum. Við hjá Frjálsu afli höfum fullan hug á að bæta þetta samband við bæjarbúa. Við lítum ekki svo á að kjörnir fulltrúar fái í hendur vald til að nýta að eigin geðþótta næstu fjögur ár frá kosningum, heldur eigi þeir líkt og starfsheitið vísar til að vera fulltrúar fólksins í Reykjanesbæ.

 

Guðni Jósep Einarsson 7. sæti

Frjálst afl - Fyrir ykkur

X - Á

 

Frjálst afl  - Hafnargötu 91 - 230 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon
  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon

Frjálst afl  - Brekkustígur 41 - 260 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

bottom of page