top of page

Eyðslusemi sjálfstæðismanna

 

Í rúman áratug hef ég tekið þátt í rekstri félaga í sjávarútvegi sem hluthafi og stjórnarmaður. Fyrir hrun lágu á borðinu ýmis konar gylliboð frá bönkum og fjármálastofnunum um að fjárfesta í hlutabréfum eða öðru af svipuðu tagi. Bankamenn voru reglulegir gestir á skrifstofu okkar á þessum árum fyrir hrun. Reyndu þeir að telja okkur trú um ágæti þess að fara út fyrir okkar verkefna-ramma og fjárfesta þar með í verkefnum sem ekki tengdust okkar starfsemi, margir vildu komast í budduna okkar. Við ákváðum frekar að einbeita okkur að því sem við kunnum, getum og skiljum til fulls. Fyrir vikið hefur reksturinn dafnað og staða félaganna er sterk. Viðskiptin telja á nokkrum milljörðum króna á ári og því greinilegt að mikið fé sest reglulega inn á reikninga okkar en fara svo aftur út til frekari fisk- og afurðakaupa. Við kaupum afurðir jafnframt af öðrum félögum og berum því ábyrgð á útflutningi fyrir þeirra hönd. Greiðslurnar berast til okkar, setjast inn á reikninga okkar og svo aftur út til útgerða, fiskmarkaða, framleiðslufyrirtækja, fyrirtækja sem sjá um flutninga og fl. Starfseminni fylgir gríðarlega mikil ábyrgð enda afurðir fluttar út til 4 heimsálfa og því mikilvægt að vera vel tryggður og vel í sveit settur með ábyrga kaupendur á erlendum mörkuðum. Hagnaður ef rekstri félaganna hefur verið drjúgur, eðlilega borga félögin því háar fjárhæðir í skatta og skila þannig miklum verðmætum í okkar sameiginlegu skútu, ríkiskassann, sem og til sveitarfélagsins í gegnum útsvar og aðra skatta.

 

Lítil yfirbygging

 

Þrátt fyrir þetta góða gengi er yfirbyggingin lítil, sömu gömlu húsgögnin sem enn virka – enginn marmari eða dýrar flísar. Eyðslusemi er ekki upp á borðinu heldur er haldið áfram og róið í rétta átt. M.ö.o. rekstur sem einkennist af trausti, yfirvegun og auðmýkt fyrir því að einhvern tíma geti daprari dagar í rekstri litið dagsins ljós. Ég tel rétt að skrifa um þetta því ég vil deila reynslu okkar til þeirra sem stjórna og hafa stjórnað sveitarfélaginu í rúman áratug. Á meðan við höfum vaxið í erfiðu samkeppnisumhverfi, þá hafa forsvarsmenn sveitarfélagsins okkar ( RNB ) sýnd fram á fullkomið ábyrgðarleysi í rekstri. Líkja má vinnubrögðunum við dag og nótt. Gegndarlaus fjáraustur í verkefni sem geta beðið hafa verið ofan á. Rekstraráætlanir hafa með öllu verið hlægilegar þar sem tekjur af rekstri í Helguvík hefur verið reiknaður inn í áætlanir án þess að rekstur hafi nokkurn tíma farið af stað. Keyrt hefur verið fram úr hefðbundnum gjalddliðum en svo virðist sem aldrei megi þolinmóðar krónur setjast inn á reikninga bæjarfélagsins án þess að farið sé af stað og þeim eytt í marga vitleysuna. Í fyrsta lagi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að sýslað er með fjármuni sem við íbúar í Reykjanesbæ greiðum í gegnum skatta okkar og skyldur. Í öðru lagi er verið að reikna til tekna viðskipti eða rekstur sem er ekki til. Í þriðja lagi eru eignar seldir undir pressu vegna slæmrar stöðu á reikningum sveitarfélagsins, en eignasalan hefur verið gríðarleg á sl. árum.

 

Afsakanir og ryk í augu kjósenda

 

Flestir, sérstaklega ungt fólk, hefur takmarkaðan áhuga á ræða þessi mál. Því reyni ég nú að skrifa um þetta á mannamáli. Þegar ársreikningur RNB kom fram nýverið og sýndi fram á tap á rekstri upp á tæpan milljarð króna þá komu fram afsakanir hjá forsvarsmönnum sjálfstæðismanna sem varla eru ræðandi. Læt þó tilleiðast og nefna þær hér. Í fyrsta lagi var verðbólgunni kennt um en hún hefur ekki verið mjög svæsin allra síðustu misserin en önnur bæjarfélög búa einnig við verðbólgu, sama gildir um heimilin. Í annan stað var tilflutningi barnafjölskyldna inn í bæjarfélagið kennt um en það hefur verið stefna flestra bæjarfélaga sem og RNB að ná fjölgun fram – hlægileg afsökun. Þriðja afsökunin var að „áætlaður“ rekstur á fyrirtækjum í Helguvík hafi ekki farið af stað og því engar tekjur komið frá þeim. Þessi afsökun glampar af fulkomnu ábyrgðar-, getu og kunnáttuleysi í rekstri. Hvar eru menn staddir?Nýverið var svo þeirri frétt slegið fram í fjölmiðlum, Víkurfréttum og Morgunblaðinu sem eru eins og margir halda fram, kosningapistlar Sjálfstæðisflokksins, að skuldahlutfallið hjá RNB af tekjum hafi lækkað gríðarlega. Einn og einn dökkblár gárungur á fésbókinni meira segi skellti þessu fram sigri hrósandi en þeim fer nú fækkandi sem tala fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins á samskiptamiðlum enda rökræðan þeirra löngu orðin gjaldþrota. Menn þurfa að vera með greindarvísitölu á við stofuhita yfir háveturinn til þess að reyna að réttlæta eða lýsa yfir hrósi á þessa yfirgengilegu vitleysu.Þessu síðastnefnda bulli má líkja við það að fjölskylda selji frá sér íbúðina og greiði skuldir. Má ekki vænta þess að skuldahlutfall fjölskyldunnar af þeirra tekjum lækki? Á móti er íbúðin seld – FARIN rétt eins og eignir okkar (RNB) m.a. í HS Veitum. RNB hefur verið selja miklar eignir sbr hlut í HS Veitum og greitt niður skuldir s.s. yfirdrátt upp á milljarð króna. Ég vona að veskið hjá bæjarstjóranum hafi ekki opnast strax upp á gátt vitandi af milljarði ónýttum í yfirdrátt. Lesendur góðir, það alvarlega er að við íbúarnir eigum þetta veski sem bæjarsjóður er, þó veskið sé úr gæðaleðri þá er það galtómt.Það er kominn tími á að almenningur í okkar ágæta bæ geri sér grein fyrir vitleysunni sem hér hefur viðgengist á undanförnum árum. Það er ekki allt gull sem glóir, lesið á milli línanna, látið ekki glepjast af fréttaflutningi miðla sem eru Sjálfstæðisflokknum hliðhollir.Í dag (16. apríl) er á bls 3 í Víkurfréttum, heilsíðuauglýsing með enn einni myndinni af bæjarstjóranum. Hann er myndarlegur kallinn en hver skyldi borga svo þessa auglýsingu sem má líkja við hluta af risavöxnu PROPAGANDA hjá sjöllunum? Ef ég man rétt er Reykjanesbær kvittaður fyrir þessari auglýsingu – við borgum þetta, RNB fær reikninginn eins og svo oft áður.Hefði ekki verið ódýrara og skynsamlegra að setja inn litla auglýsingu með þetta?

 

Gunnar Örn Örlygsson

Frjálst afl  - Hafnargötu 91 - 230 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon
  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon

Frjálst afl  - Brekkustígur 41 - 260 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

bottom of page