top of page

Óþolandi atvinnuástand í Reykjanesbæ.

 

Árið 2013 þurftu 557 einstaklingar að leita fjárhagsaðstoðar til Reykjanesbæjar, sem samsvarar nær 4% af heildaríbúafjölda bæjarins. Þar af bættust 146 aðilar við á árinu 2013 þegar þeir duttu út af atvinnuleysisskrá. Í ár er áætlað að við bætist um 160 manns. Kostnaðurinn við fjárhagsaðstoðina hefur hækkað um 250% frá árinu 2007.

 

Þessar tölur eru sláandi og mikið áhyggjuefni. Ljóst er að hrinda verður af stað öflugu átaksverkefni í atvinnumálum. Uppbyggingin í Helguvík mun vonandi fyrr en síðar skila traustum og vel launuðum störfum, en fólk er orðið langþreytt á ofnotuðum loforðum bæjaryfirvalda um að verkefnin séu alveg að skella á. Búið er að senda út ótal fréttatilkynninga og efna til borðaklippinga og formlegra undirskrifta milli sveitarfélaga, einkaaðila og ríkis. Það er meira að segja búið að reisa risavaxið stálgrindarhús utan um álver. En ekkert gerist og störfin láta standa á sér. Hér verða bæjaryfirvöld að vinna miklu nánar með ríkisstjórninni um að ryðja burt óþarfa hindrunum í orkumálum frá því í tíð síðustu ríkisstjórnar.

 

Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn hafa gert of mikið af því að tala upp einstök verkefni í stað þess að einbeita sér að raunhæfum verkefnum á völdum sviðum. Þeir hafa t.d. gjörsamlega hunsað ferðamannaiðnaðinn ef frá eru talin nokkur skilti meðfram Reykjanesbrautinni eða risavaxið hálftómt Víkingaminjasafn sem enginn sækir. Atvinnuþróunarfélagið Heklan á Ásbrú er góður vettvangur til að styðja við bakið á frumkvöðlastarfsemi. Þar eru nú þegar í gangi mörg spennandi verkefni sem geta skilað fjölbreyttum störfum í framtíðinni. En frumkvöðlastarfsemi er langhlaup sem krefst fjárfestinga. Með því að efla Hekluna meðal annars með bættri tengingu við atvinnulífið og ýmiskonar samtök, er hægt að skapa enn fleiri tækifæri í ferðaþjónustu, iðnaði, nýsköpun og annarri þjónustu.

 

Með samstilltu átaki í atvinnumálum, með áherslu á verkefni sem skila störfum strax, er hægt að koma áður nefndum einstaklingum, sem eru við það að festast í félagslega kerfinu, til sjálfsbjargar.

 

Tökum til og hefjum uppbyggingu!

 

Davíð Páll Viðarsson er í 3. sæti á Á-listanum.

Frjálst afl – fyrir ykkur!

 

 

Frjálst afl  - Hafnargötu 91 - 230 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon
  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon

Frjálst afl  - Brekkustígur 41 - 260 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

bottom of page