top of page

Gunnar Þórarinsson - Ábyrg stjórn skapar auðugra mannlíf

Frjálst afl eru stjórnmálasamtök sem stofnuð voru í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga árið 2014. Hópur fólks með svipaðar skoðanir tók sig saman og myndaði framboðlista í kjölfarið. Eftir kosningar var myndaður meirihluti með þátttöku Frjáls afls. Í því samstarfi var mótuð stefna sem kölluð var Sóknin. Þar var lögð áhersla á niðurgreiðslu skulda, í samræmi við stefnuskrá framboðsins og skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga. Lækkun skulda bæjarins veitir svigrúm til bættrar þjónustu til framtíðar. Frjálst afl mun þess vegna halda sókninni áfram með það að markmiði að ná lögbundnu skuldaviðmiði sveitarfélaga fyrir lok árs 2022. Við viljum jafnframt að áfram verði faglegur bæjarstjóri við stjórnvölinn sem hefur hagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi.

Fjölbreytt, vel launuð störf

Frjálst afl stendur fyrir frjálslynd og jafnréttismiðuð gildi og leggur áherslu á ábyrgð í rekstri og þjónustu við íbúa bæjarins. Mikilvægt er að horfa til framtíðar með hag og velferð bæjarbúa að leiðarljósi. Betri rekstur tryggir betra mannlíf og gerir kleift að hrinda sóknarfærum framtíðar í framkvæmd. Árangur af slíkri stefnu er ávallt í þágu íbúa bæjarins. Nauðsynlegt er að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið, velferð verður að byggja á traustum grunni verðmætasköpunar. Atvinnulíf á Suðurnesjum hefur verið í stöðugum vexti síðastliðin ár og atvinnuleysi er orðið með því lægsta sem gerist á landinu. Atvinnutækifæri hafa aukist, en engu að síður stöndum við frammi fyrir einhæfu atvinnulífi. Þess vegna þarf að stuðla að fjölbreyttari, vel launuðum störfum.

Stuðningur við barnafjölskyldur , menntun og menningu

Okkur er annt um hag barnafjölskyldna bæjarins og við munum áfram styðja við þann hóp. Halda skal áfram systkinaafslætti, hækka hvatagreiðslur, gera þær skilvirkari og auka fjölbreytni í tómstundastarfi barna. Við teljum að móta þurfi skýra framtíðarsýn í forvarnarmálum til að efla enn frekar það góða forvarnarstarf sem unnið hefur verið í málefnum barna og ungmenna. Menntun er forsenda framþróunar og undirstaða velferðar í hverju samfélagi. Frjálst afl gerir sér grein fyrir mikilvægi menntunar og þeirri ábyrgð sem fylgir málaflokki menntamála. Við viljum leggja áherslu á að í skólakerfinu sé fagfólk í stöðum og starfi. Einnig viljum við halda áfram að styðja það starfsfólk sem vill bæta við sig menntun. Menning er ekki einungis mikilvæg verðmætasköpun samfélagsins, heldur hefur hún líka mikilvægt mannræktargildi í sjálfri sér. Reykjanesbær getur státað af frjórri menningarhugsun og öflugri menningu bæjarins. Við viljum halda áfram á þessarii braut.

Spennandi bæjarfélag til framtíðar

Reykjanesbær á að vera spennandi kostur fyrir kynslóðir framtíðar. Í því skyni þarf hagsæld og velferð bæjarbúa að vera sjálfbær. Það á ekki eingöngu við um fjárhag samfélagsins, heldur einnig um umhverfi okkar. Við viljum efla almenningssamgöngur með tíðari ferðum á álagstímum og sérferðum sem taka mið af tómstunda- og íþróttaiðkun barna og ungmenna. Taka þarf skipulagsmál Ásbrúar til endurskoðunar, þar sem spurn er eftir lóðum sem kallar á aukna þjónustu á svæðinu. Gera þarf átak í endurnýjun gatna og gangstétta. Við viljum jafnframt tryggja að íþróttastarfið dafni m.a. með því að tryggja því viðunandi aðstöðu, sambærilega þeirri sem tíðkast í þeim sveitarfélögum sem við viljum bera okkur saman við. Þjónusta við fólk af erlendu bergi brotnu verði aukin og áfram haldið heilsueflingu eldri borgara. Þannig viljum við auðga mannlífið með ábyrgri stjórn bæjarmála.

 

Með baráttukveðju,

Gunnar Þórarinsson í 1. sæti Frjáls afls

  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon

Frjálst afl  - Brekkustígur 41 - 260 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

bottom of page